Reglur fyrir fjáraflanir yngri flokka Knattspyrnudeildar Skallagríms

Allar fjáraflanir og meðferð fjármuna eru á ábyrgð stjórnar Knattspyrnudeildar Skallagríms og því er nauðsynlegt að vel sé vandað til ákvarðana um fjáraflanir. Iðkendur og forráðamenn þeirra skulu vel upplýstir um fyrirhuguð verkefni, kostnað og fjáraflanir sem áætlaðar eru til að standa straum af kostnaði. Skýrar reglur skulu gilda um meðferð fjármuna.

Gætt skal að því að óheimilt er að binda fjárskuldbindingar í nafni Knattspyrnudeildar,  nema fyrir liggi samþykki yngriflokkaráðs og /eða stjórnar deildarinnar.

Óheimilt er að taka upp fjáröflun sem hefð er fyrir að annar aðili innan Umf.  Skallagríms stundi, nema með samþykki hans. Þetta ákvæði á þó ekki við um söfnun áheita sem tengjast viðkomandi íþróttagrein eða útgáfustarfsemi. Komi upp vafi hér um skal leita úrskurðar aðalstjórnar Umf. Skallagríms.

 

Ofangreindu til viðbótar gilda eftirfarandi vinnureglur:

 

1.      Fjáraflanir einstakra flokka skulu vera á vegum viðkomandi foreldraráðs eða iðkenda sjálfra, ef þeir eru 18 ára eða eldri. Áður en ráðist er í fjáröflun skal viðkomandi hópur eða foreldraráð tilnefna ábyrgðarmenn fjáröflunarinnar.

 

2.      Áður en ráðist er í fjáröflun á vegum einstakra flokka innan deildarinnar skal liggja fyrir samþykki Yngriflokkaráðs. Leita skal samþykkis með eins góðum fyrirvara og unnt, tilgreina í hverju fjáröflun er fólgin og til hvaða verkefna verja skal ágóða. Ef einstakir flokkar hyggja á  fleiri en eina fjáröflun á árinu skal skila inn lauslegri fjárhagsáætlun með markmiðum um heildar tekjur og gjöld.

 

3.      Samhliða samþykki yngriflokkaráðs skal liggja fyrir hvort og þá að hve miklu leyti deildin leggur fjármagn til viðkomandi verkefnis, svo sem með því að kosta þjálfara og/eða fararstjóra.

 

4.      Áður en fjáröflun hefst, skal liggja fyrir hvernig ágóða af fjáröflun verði varið. Hvernig skipting fjár er ráðstafað er á forræði hvers flokks, en æskilegt er að ágóði af fjáröflunum sé merktur viðkomandi einstaklingi sem tekur þátt í fjáröflun fremur en að um sé að ræða sameiginlegan sjóð. Foreldraráð viðkomandi flokks ber ábyrgð á að upplýsingar um slíka skiptingu séu öllum kunnar enda hafi þær verið ræddar og samþykktar af þeim sem að söfnuninni standa og í samræmi við reglur félagsins.

 

5.      Allar fjáraflanir yngri flokka skulu vera í því formi að ákveðin gæði komi til afhendingar gegn gjaldi þ.e. að um einhverskonar sölustarfsemi sé að ræða eða að vinna sé innt af hendi. Ekki er heimilt að leita beint til fyrirtækja um beinan fjárstuðning þar sem slíkt getur stangast á við fjáraflanir deildarinnar til sameiginlegra verkefna, nema með samþykki stjórnar deildarinnar.

 

6.      Í lok hvers tímabils skal  foreldraráð skila inn til Yngriflokkaráðs, yfirliti (rekstrarreikningi) yfir fjáraflanir; tekjur og til hvaða verkefna fjármunum var varið.

 

7.      Æskilegt er að einstaklingar sem afla fjár til starfsemi Knattspyrnudeildar séu við fjáraflanir merktir félaginu og gefi upplýsingar fyrir hvern og til hvaða verkefnis fjárins er aflað.

 

8.      Yngri flokkum er heimilt að safna dósum á félagssvæðinu að undangengnu leyfi frá Yngriflokkaráði. Afrakstur að söfnun rennur þá beint til viðkomandi flokks. Leyfið er háð því skilyrði að viðkomandi flokkur sjái um að tæma dósakistu Skallagríms sem staðsett er á Hyrnuplaninu einu sinni á móti hverri söfnun. Afrakstur af tæmingu kistunnar rennur til sameiginlegra verkefna deildarinnar.

 

9.      Fjáröflun skal miðast við að standa straum af beinum kostnaði vegna viðburðar, svo sem kostnaði við þáttöku í mótum, beinum ferða- og dvalarkostnaði, auk kaupa á sameiginlegum æfinga-og utanyfirfatnaði sem hópurinn hefur sammælst um. Eingöngu skal safnað fyrir kostnaði vegna iðkenda sjálfra og eftir atvikum fyrir fararstjóra og þjálfara.

 

10.  Þannig er óheimilt að safna fé til einkaneyslu í nafni deildarinnar. Til einkaneyslu telst öll önnur neysla en sem til er stofnað vegna verkefna og viðburða á vegum viðkomandi flokks og hafa verið rædd og samþykkt af iðkendum og/eða foreldrum.

 

11.  Heimilt er vegna ferðalaga erlendis að gera ráð fyrir tiltekinni upphæð þ.e. dagpeningum, til einstaklinga enda sé sú upphæð í samræmi við beinan kostnað sem áætlað er að einstaklingur þurfi að bera vegna ferðarinnar umfram það sem hann hefði annars þurft. Til viðmiðunar skulu dagpenirngar ekki vera hærri en sem nemur 15% af heildarkostnaði við ferð.

 

12.  Einstaklingar geta ekki fendið endurgreitt það sem safnast hefur þótt viðkomandi hætti við að taka þátt í þeim viðburði sem safnað er fyrir. Í slíkum tilvikum rennur fé sem merkt var viðkomandi einstaklingi í sameiginlegan sjóð flokksins.

Ábyrgðarmenn fjáröflunar geta sótt um undanþágur frá reglum þessum. Yngriflokkaráði og stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms er heimilt að veita undanþágur að fengnum meðmælum viðkomandi foreldraráðs. Stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms úrskurðar um öll ágreiningsmál sem upp kunna að koma í tengslum við safnanir á vegum félagsins og getur sett nánari reglur ef slíkt telst nauðsynlegt.

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Skallagrímsgata 7a, 310 Borgarnes