29. ágúst 2013

Vetrarstarfið að hefjast hjá sunddeildinni

Nýr þjálfari hefur verið ráðinn hjá sunddeild Skallagríms og vetrarstarfið er að hefjast. Æfingar hefjast mánudaginn 2. september og verða út maí 2014 að undanskyldu tveimur vikum um jólin (21. desember – 5. janúar) og í dymbilvikunni.

  

Þjálfari í vetur verður Heiðrún Ýr Vilmundardóttir. Hún er reynd sundkona og hefur æft með Sundfélagi Hafnarfjarðar. Í tímum fyrir yngstu krakkana, Gullfiska og Kópa, verður aðstoðarþjálfari.

  

Æfingar hjá Sunddeild Skallagríms fara fram í sundlauginni í Borgarnesi.

Í vetur verða í boði fjórir sundhópar: 

 

Gullfiskar (5 ára og eldri ósynd börn, 1x í viku í innilaug)

Kennt er einu sinni í viku, mánudaga kl. 16:10-16:55.

Krakkar í þessum flokki eru ósynd eða lítið synd og læra því fyrstu sundtökin. Kennsla fer fram í innilaug og eru 5 ára börn sérstaklega velkomin.

 

Kópar (1. og 2. bekkur, 2x í viku í innilaug)

Í boði eru tveir tímar á viku, mánudaga kl. 17:05-17:50 og miðvikudaga kl. 16:05-16:55. Krakkar í þessum flokki eru búin að læra fyrstu sundtökin en bæta nú sundkunnáttu sína. Kennsla fer fram í innilaug.

 

Selir (3. og 4. bekkur, 2x í viku í innilaug)

Kennt er tvisvar í viku mánudaga kl. 17:55-18:40 og miðvikudaga kl. 16:55-17:40. Krakkar úr sveitum geta nýtt sér strætó heim á miðvikudögum, en hann fer kl. 17:55 frá íþróttahúsinu. Í þessum flokki eru flestir krakkar syndir en markmiðið er að þjálfa betur ýmsar sundgreinar auk undirbúnings fyrir keppni á litlum mótum. Kennslan fer fram í innilaug.

 

Höfrungar (frá 5. bekk, 3x í viku í útilaug)

Í boði eru þrjár æfingar á viku sem eru þriðjudaga og fimmtudaga kl. 16:25-17:40 og föstudaga kl. 16:15-18:15. Krakkar úr sveitum geta nýtt sér tómstundarútuna beint eftir skóla en hún verður komin í Borgarnes upp úr fjögur á þriðjudögum og fimmtudögum. Strætó fer síðan til baka frá íþróttahúsinu kl. 18:00. Æfingatíminn er miðaður við að krakkarnir geti nýtt sér þessar ferðir á þriðjudögum og fimmtudögum. Tímarnir á þriðjudögum og fimmtudögum fara fram í útilauginni. Föstudags-tímarnir byrja á þrekæfingum í sal og síðan er farið í útilaugina.  Áhersla er lögð á tækniæfingar, þjálfun hraða og úthalds, stungur og snúningar, undirbúningur fyrir keppni.

 

Æfingatöflu og upplýsingar um æfingagjöld og greiðslufyrirkomulag má nálgast undir viðeigandi krækjum hér til vinstri.

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Skallagrímsgata 7a, 310 Borgarnes